13.12.13

blikkið


Dóra rak mig í að blogga aftur þannig að hæ. 
Ég var hins vegar frekar hugmyndasnauð um nákvæmlega hvað ég ætti að blogga þannig að eins og svo oft áður, þá fletti ég í gegnum möppu í tölvunni minni sem inniheldur alltof mikið af myndum sem mér hefur á einhverjum tímapunkti fundist fallegar, sniðugar, fyndnar eða asnalegar. Og hvað haldið þið að ég hafi fundið grafið á milli mynda af fallegum peysum og screenshots úr The Fall? Jújú, þetta meistaraverk eftir sjálfa mig:
Það var nefnilega frekar lítið að gera einn daginn í vinnunni í sumar og ég var nýbúin að klára bæði bók og nesti. Þá fékk ég þá frábæru hugmynd að taka þessa fínu mynd af Magdalenu Frackowiac og teikna mjóar neonlitaðar línur í kringum alla skugga og andlitsdrætti. Í nafni hreinskilni þá skal ég viðurkenna að þetta tók langan tíma en það er allt í lagi af því að það gaf mér tækifæri til þess að hlusta á nokkra klukkutíma í viðbót af þessu. Þegar verkinu var svo loksins lokið hlýt ég að hafa verið komin í eitthvað undarlegt skap af því að á þessum tímapunkti fannst mér ekkert meika meira sens en að skella upprunalegu myndinni og svo lagfæringunum mínum saman í eitt sætt gif. 
Ég veit að þetta er ekki beint jólalegasta mynd í heimi en samt er eitthvað við neon-blikkið sem minnir mig á jólaseríurnar sem eru í uppáhaldi hjá Ítölum.. þeir kjósa nefnilega nær eingöngu blikkandi partýseríur sem eru farnar að valda mér höfuðverkjum. Hlakka til að sjá friðsamlegu ljósin á Íslandi!


..ég held ég skilji þetta bara hljóðlega eftir hérna og vona að mér finnist ennþá jafn fyndið á morgun að ég hafi sett þetta á bloggið mitt. Ciao!


12.12.13

nýjungin


Ég er mjög slæm með það að fresta hlutum. Núna bíður til dæmis heilt fjall af heimavinnu þess að ég sinni því en í staðinn fyrir að byrja klifið, þá finnst mér þetta vera upplagður tími til þess að endurlífga bloggið mitt. Þannig að hér erum við.

Um daginn var ég, eins og svo oft áður, á ferð um borgina að leita að hlutum sem ég þarf að nota í skólanum. Í þetta skiptið beindist leitin að ákveðinni gerð af pennum sem var nauðsynlegt að eignast fyrir kennslustund daginn eftir. Ég hélt því út í kuldann þegar skólanum var lokið þennan dag með úlpuna rennda upp í háls, hökuna keyrða ofan í trefilinn og þunga skólatöskuna á öxlinni. Eftir að hafa gengið marga kílómetra og fengið þau svör um að pennarnir væru uppseldir (eða þannig túlkaði ég alla vega handapatið) í hverri búðinni á fætur annarri, þá kláraðist þolinmæðin mín. Ég ákvað því að streitast á móti vindinum og halda heim á leið.
 Ég var ekki komin langt þegar ég rakst á þessi orð:Mér fannst smá kaldhæðnislegt að sjá þessi skilaboð, svona í ljósi þess að ég hef varla gert neitt annað en að upplifa eitthvað nýtt síðan ég flutti hingað. Eftir nokkurra mínútna göngu var ég þó búin að íhuga þetta betur. Ég er algjörlega komin inn í fasta rútínu sem breytist lítið á milli daga. Þar með eru upplifanirnar ekki lengur nýjar, heldur orðnar hversdagslegar. Það er orðið svo venjulegt að upplifa þessa ólíku menningu hér að hún hefur ekki jafn mikil áhrif á mig og hún gerði í upphafi. 
Hvert er ég að fara með þessu? Jú, þið eruð að fara að komast að því.

Á sama tíma og þessar hugsanir voru á sveimi í kollinum á mér, kom sérlega andstyggilegur vindgustur og smeygði sér beint að hálsinum mínum. Ég rak augun í einn af fatasölustöndunum sem eru hér út um allt, bölvaði vindinum í huganum og fór beinustu leið og keypti mér rúllukragabol.

Ég er ekki viss um að þið gerið ykkur almennilega grein fyrir því hversu stórt mál þetta er fyrir mig.. alla vega ekki þau ykkar sem hafa ekki þurft að hlusta á mig flytja mjög nákvæma og vel ígrundaða hatursræðu sem beinist að rúllukrögum. Mér líður smá eins og ég sé búin að svíkja allt sem ég trúi á, en á sama tíma er mér eiginlega alveg sama af því að í augnablikinu er mér þægilega hlýtt á hálsinum - tilfinning sem ég er ekki alveg búin að venjast ennþá. 


Þessi sjálfsmynd sýnir greinilega að ég er enn á varðbergi gagnvart því að rúllukraginn muni á einhverjum tímapunkti reyna að kyrkja mig en þetta er allt saman að koma og ég hef fulla trú á því að við munum verða bestu vinir. Ég er jafnvel að íhuga það að bjóða honum með heim til Íslands um jólin en ekki segja honum frá því - ég vil að það komi á óvart.

29.11.13

hjúfrið
Ég vissi um leið og ég kom inn í kennslustofuna til þess að fara í minn fyrsta photoshop tíma að þessi áfangi myndi seint komast í uppáhald. Nú þegar þremur kennslustundum er lokið, veit ég að ég á eftir að þurfa að vinna vel að því að ná árangri í þessu forriti því kunnáttan á það er vel utan við mitt þekkingarsvið.. sem og flest annað sem tengist tölvum/tækni, heh.
Það er varla hægt að segja að ég sé stolt af þessari klippimynd minni en þar sem markmiðið með þessu bloggi er aðallega að halda yfirlit yfir innblásturinn minn, verkefnin mín og framfarir, þá finnst mér að þessi mynd eigi rétt á að kúra hér.

Annars er ég stoltust af því að hafa náð að klára þetta af því að (og nú fá tölvuhæfir einstaklingar góðfúslegt leyfi mitt til þess að hnussa) það var frekar flókið að klippa allar þessar myndir út og raða þeim upp þannig að þær fóru ekki í taugarnar á mér.. og auðvitað náði ég að misreikna staðsetninguna á hverri mynd svo gríðarlega að það mætti halda að ég hefði verið að gera þetta að loknum nokkrum tekílaskotum en ekki á mánudagsmorgni með dyggri aðstoð frá kanilkaffinu mínu.

Í lok áfangans mun ég svo skoða þessa bloggfærslu mína og hlæja að því hversu léleg í photoshop ég var til að byrja með.. right? Jújú, það mun pottþétt gerast - sé fram á gífurlegar framfarir! Stórir draumar og allt það.

20.11.13

afbragðÞað er afbragðsgott að hlusta á þetta lag fyrir svefninn.. Vandamálið er samt að ein hlustun breytist í tvær, tvær breytast í þrjár, þrjár í fjórar.. Niðurstaðan er sú að svefntímanum er stöðugt seinkað en mér er samt eiginlega sama - Nick Cave hefur þau áhrif.

15.11.13

rokkið


Ég veit ekki hvort það hefur farið framhjá einhverjum, en síðasta miðvikudag upplifði ég eitt það magnaðasta sem ég hef nokkurn tímann upplifað; tónleika með Arctic Monkeys. 
Til að koma mér í rétt og rokkað hugarástand fyrir tónleikana, ákvað ég að skreyta mig með þessari lærakeðju. Ég hafði þó sem betur fer vit á því að fara ekki með hana á tónleikana af því að ef ég hefði gert það, þá væri hún núna týnd að eilífu! Þvílík dásemdarsturlun sem þetta var!
Alla vega, ég bjó til þessa keðju einhvern tímann síðasta vetur en hafði bara notað hana einu sinni af því að það virtist aldrei vera hentugt tækifæri til þess að spóka sig um með hana. Mér finnst líka varla þóknanlegt að nota hana við stuttbuxur af því að þá sést í teygjuna og það hitti þannig á að þegar ég var nýbúin að búa hana til, þá fór ég á langt stuttbuxnaskeið. Á eftir því fylgdi svo gallabuxnaskeiðið mitt þannig að hún var líka lítið notuð þá. Einhvern veginn datt mér samt í hug að stinga henni ofan í ferðatöskuna mína á síðustu stundu þegar ég pakkaði fyrir Ítalíu.
Það var frekar einfalt að gera hana og ef ég kemst allt í einu upp á lag með að nota hana, þá bý ég kannski til fleiri afbrigði. Það mun þó ekki gerast fyrr en um jólin af því að keðjupokinn minn var of þungur fyrir reglugerðir flugfélaga um töskuþyngsl..

Dóra bjó til myndband sem fangar stemninguna á tónleikunum fullkomlega, hér
Langar aftur! Af hverju er Alex Turner svona heillandi?! ;)

11.11.13

hrollurinn
Ég eyddi deginum í að ferðast um Mílanó þvera og endilanga til þess að elta uppi hluti á afskaplega löngum innkaupalista. Maður hefði haldið að það ætti ekki að vera svo erfitt að finna nokkrar gerðir af pappír í pappírsbúð eða reglustiku sem notuð er við að teikna snið í saumabúð en það var víst einhver mánudagur í öllum í dag (og ég tel sjálfa mig með í því).
Þótt ég hafi fundið fátt annað á þessu vappi mínu um borgina þá fann ég þó almennilega fyrir því að það er farið að kólna þannig að núna þarf ég að fara að vefja mig inn í fleiri lög af fötum áður en ég rölti í skólann á morgnana. Ég hef svo sem ekkert á móti því þar sem ég er orðin afhuga öllum átfittum sem samanstanda ekki af prjónuðum peysum, buxum, þykkum sokkum og stórum trefli. Því meira sem ég líkist stórum bangsa, því betra! ..Nei ókei, ástandið er kannski ekki alveg orðið svo slæmt en það styttist í það!

Í tilefni ört kólnandi veðurs og kósý fatnaðar, þá ætlum við Dóra að fagna með því að kjamsa á eplum og kúra yfir þessari.

stay warm!

8.11.13

ábreiðan


Ég er mjög misvirk þegar kemur að bloggferlinu. Eina vikuna er ég með höfuðið fullt af hugmyndum og blogga jafnvel oftar en einu sinni á dag. Aðrar vikur ganga ekki eins vel og líða hjá, blogglausar. Það er ekki það að ég hafi ekki neitt til þess að blogga um - þvert á móti jafnvel. Um síðustu helgi skruppum við Dóra t.d. í heimsókn til Matteo í Sviss þar sem við borðuðum vandræðalega mikið og hlógum ennþá meira. Fullkomið! (takk aftur fyrir mig, Matteo!) Í þessari viku er búið að vera mjög mikið að gera. Ég byrjaði í þremur nýjum áföngum sem ég gæti svo sem reynt að skrifa eitthvað skondið um en, því miður, þá er ég bara ekki nógu sniðug og fyndin í augnablikinu til þess að láta það hljóma sjarmerandi. Ég lofa að reyna einhvern daginn en núna er ég of full af gómsætu pasta og með hugann við djúsí ávaxtasalat með bræddu súkkulaði sem ég er að fara að borða yfir einum þætti (ókei, eða þremur) af Sherlock á eftir.
Hvað gera bændur þá, þegar þeir eru of hugmyndasnauðir til þess að blogga en samt með samviskubit yfir því hvað það er langt síðan þeir gerðu það síðast?

Jú, þeir taka því sem teikni um að nú sé kominn tími til að blogga aftur um Jack White.
Þið verðið að afsaka það en héðan í frá mun ég víkja frá góðri íslenskri málnotkun. Þetta lag er nefnilega cover. Ég gæti svo sem notað orðið ábreiða sem er opinbera íslenska þýðingin á cover en æi, mér finnst það hljóma eitthvað svo tilgerðarlega.

Eins og alþjóð veit, þá er þetta lag eftir Dolly Parton og er kannski ekki lag sem maður myndi búast við því að The White Stripes spili, en það er einmitt eitt af því sem ég elska við þau. Þau gáfu Jolene út á B-hliðinni á smáskífunni sem kom út til að kynna De Stijl árið 2000. Á þessum tíma voru The White Stripes á mikilli uppleið og voru aðallega þekkt fyrir að koma af stað bylgju af hljómsveitum sem duttu aftur í hrátt rokk. Það er því mjög óvenjulegt að þau hafi ákveðið að gefa út cover af lagi sem gömul kántrístjarna samdi og gerði frægt. Það hækkar ekki beint kúlfaktorinn, alla vega ekki svona á blaði.

Þetta cover er samt mjög áhugavert. The White Stripes breyta laginu og taka poppið úr því sem gerir það mun átakanlegra og maður gerir sér grein fyrir tilfinningunum sem felast í textanum. Jack breytir þó ekki textanum og lagar hann að sér, sem karlmaður. Hann syngur lagið enn frá sjónarhorni konunnar en það verður einhvern veginn ekki skrítið. Ef eitthvað er, þá nær hann að leggja ennþá meiri tilfinningu í það með því að flytja það á þennan hátt. Jack White að hálföskra "I'm begging of you, please don't take my man"? Óviðjafnanlegt.27.10.13

aluminium Kate Bosworth hannaði (eða setti nafnið sitt á) nýja línu fyrir Topshop og Jeremías hvað ég er búin að bölva því mikið að Topshop sé ekki hér í Mílanó! Veit ekki hvað það er við þessar silfruðu flíkur sem láta mig fara í kollhnísa í huganum en ég veit þó að þær myndu lífga alvarlega upp á fataskápinn minn.
25.10.13

broskiprur

Ég er ekki hress á morgnana. Þarna, ég viðurkenndi það. Þetta er eitthvað sem velflestir læra fljótt þegar þeir kynnast mér og reyna að halda uppi samræðum við mig þegar ég hef verið vakandi í tiltölulega stuttan tíma. Lengi vel var ég í mikilli afneitun og hélt því fram að ég væri bara frekar hress svona í morgunsárið.. en það er bara alls ekki raunin, Dóru og Gumma til mikillar gleði.

Í morgun skreið ég fram úr rúminu eftir alltof lítinn svefn og þrjú snooze. Eftir afskaplega kalda og kraftlitla sturtuferð bjó ég til hafragraut og barðist við að halda andlitunum á tveimur snargölnum, uppáþrengjandi og leiðinlegum köttum upp úr grautarskálinni minni. Þar næst klæddi ég mig í ljót og leiðinleg föt (það er allt ljótt og leiðinlegt á morgnana) og bjóst til þess að þramma í skólann með hendurnar djúpt ofan í vösum og Elliott Smith í eyrunum. Á síðustu stundu rak ég augun í þennan appelsínugula varalit sem ég hafði aldrei sett á mig áður og hugsaði með mér að hann gæti nú varla gert morguninn verri. 
Ég hafði rétt fyrir mér því um leið og liturinn var kominn varirnar fann ég að þær kipruðust upp í brosi. Ég er svo óvön brostilfinningu á morgnanna að ég ákvað að smella af myndum til þess að skjalfesta viðburðinn. 


  
..Ég hef lúmskan grun um að þessi varalitur muni klárast fljótt..


 

24.10.13

textile trends


Skólinn er loksins kominn á fullt og honum fylgir auðvitað heimanám sem mér finnst nú eiginlega ekkert leiðinlegt að vera að stússast í að klára.. Fyrsta verkefnið sem mér var sett fyrir fólst í því að fara í gegnum sýningar hönnuða frá Fall/Winter 2013 línunum og gera tvær klippimyndir tileinkaðar sitthvoru textíltrendinu sem komu fram á tískupöllunum. 
Heimanám sem krefst þess að ég fari í gegnum tískusýningar? Ég held að ég sé búin að finna rétta námið..


Fyrri myndin er grá yfirlitum en þegar nær er að gáð, sést að öll efnin hér eru búin til með því að blanda saman hvítum og ýmsum blæbrigðum af svörtum og gráum til þess að skapa nýjan, gráan textíl. Mér finnst mjög áhugavert að sjá á hversu ólíkan hátt hönnuðir tækla þetta. Alexander Wang hannar t.d. bæði fyrir sitt eigið merki og svo líka Balenciaga. Hjá Alexander Wang verður efnisblöndunin að yrjóttu, steingráu efni en hjá Balenciaga verða áhrifin líkust marmara. Hann náði því að túlka þetta á tvo, mjög ólíka vegu.
Línan hjá Sportmax var full af þessum textílleik og ég hefði auðveldlega getað búið til myndina með því að nota bara föt frá þeim, en þá hefði ég ekki beint verið að fylgja verklýsingunni, heh.
Mér fannst ótrúlega gaman að grúska í þessu, enda er ég (eins og hún mamma) alltaf smá veik fyrir gráum lit. Ég verð þó að viðurkenna að eftir að hafa starað á þessi efni í langan tíma, þá voru augun mín orðin frekar vitlítil. 


Seinna þemað mitt var því kærkomin hvíld fyrir augun. Það er miklum mun þægilegra að rýna á mjúk flauelsefni sem falla á svo heillandi hátt heldur en dáleiðandi grá munstur. Ég valdi aðallega að fjalla um þetta trend vegna þess að ég hef ekki getað vikið fjólubláa skósíða kjólnum frá Alberta Ferretti úr huganum síðan hann var sýndur á tískupöllunum í febrúar. Flauel er oftast haft í dökkum, ríkum litum eins og smaragðsgrænum en mér finnst eiginlega skemmtilegra að sjá þegar flauel er notað í litum og sniðum sem eru ekki svo hefðbundin. Eða kannski er ég bara að segja þetta vegna þess að ég er vandræðalega skotin í gráa flauelinu hjá Marni..

Hvað sem því líður, þá er hér fyrsta verkefnið mitt fyrir IED.

14.10.13

sjálfstæðiðÆi, það er bara eitthvað við leður. 
Ég er nýlega farin að nota mjög mikið af leðri í skartgripina mína. Ég hugsa líka mikið um leður þegar ég skissa og flest fötin sem ég hanna í huganum innihalda það í einhverju magni.
Mér finnst samt smá fyndið að ég hafi fallið svona mikið fyrir þessu efni allt í einu - sérstaklega þegar tillit er tekið til þess að ég eignaðist minn fyrsta leðurjakka ekki fyrr en núna í sumar (eignast og ekki eignast samt.. held að ég sé tæknilega með hann í láni frá Sigurdísi, heh).


Leður er svo fjölbreytt. Hvítt eða steingrátt leður passar mun betur inn í hönnunarheiminn minn heldur en harkalegt svart leður en það er ekki hægt að neita því að svart leður er heillandi. 
Kannski heillast ég bara af því hversu sjálfstæður maður virkar þegar maður er í svörtu leðri á meðan ljóst leður dregur upp léttbærari mynd.


12.10.13

III


Það er ómögulegt að þekkja mig vel án þess að hafa það á hreinu að ég elska Jack White. Sólrún elskar Jack White. Ein af ófrávíkjanlegum staðreyndum alheimsins. Þannig er það bara.Ég hef smá hikað við að byrja að skrifa um Jack White hér.. Ástæðan er aðallega sú að ég er hrædd um að ef ég byrja að koma orðum að ást minni á honum, þá muni ég aldrei hætta að tala um hann og að þetta blogg verði algjörlega tileinkað honum.

Ég ætla því að reyna að dreifa ástarjátningum mínum til hans yfir nokkra bloggpósta og reyna mitt besta til þess að halda mig við eðlilega skriflengd á bloggunum um hann.. Við sjáum svo til hvernig það mun ganga.

Málið er bara að Jack White hefur verið mjög stór og, eiginlega, óaðskiljanlegur partur af lífi mínu í næstum því átta ár og ég er ennþá jafn heilluð af honum núna og ég var þegar Sigurdís spilaði fyrst fyrir mig My Doorbell í skrifstofunni heima. Hún hefur líklega ekki búist við því hverju hún var að koma af stað með því að sakleysislega spila þetta lag fyrir mig.. Þetta sumar leið hjá án nokkurra eftirminnilegra viðburða en þó man ég að The White Stripes fylgdu mér næstum því hvert einasta skref - sérstaklega ef þessi skref voru tekin á milli rúlla til þess að ganga frá endum. Mp3 spilarinn þurfti að vinna yfirvinnu við að færa mér tóna Get Behind Me Satan plötunnar og hann fékk nú ekki mikið frí þegar ég uppgötvaði að The White Stripes höfðu þá þegar gefið út fjórar aðrar plötur.

Næstu árin fylgdist ég svo m.a. með honum gefa út aðra plötu með Meg, stofna tvær aðrar hljómsveitir og gefa út fjórar plötur samanlagt með þeim, stofna sitt eigið útgáfufyrirtæki og svo hefja sólóferil. Það er því af nógu efni að taka þegar fjalla á um Jack White og ég lofa að reyna að halda fangirling-inu mínu í lágmarki, heh.p.s. Þið hafið ekki hugmynd um hversu erfitt það var að velja bara eitt lag..

10.10.13

í uppáhaldi


Eitt af því sem fylgdi flutningnum til Ítalíu var að vera netlaus í tvo daga. Það hljómar ekki eins og langur tími en það var samt komin undarleg óeirð í mig yfir að vera svona sambandslaus. Þegar ég fékk svo netið í tölvuna mína þá var náttúrulega rokið beint á facebook. Þegar ég var búin að skrolla yfir tveggja daga uppsafnaða efnið þá var komið að því að fara blogghringinn. Það sem mér finnst athyglisvert er að ég á nokkur uppáhaldsblogg og ég skoða þau alltaf í sömu röð.
Þetta fæddi af sér þá hugmynd að fjalla kannski aðeins um uppáhöldin mín því hreinskilnislega sagt, þá eyði ég vandræðalega miklum tíma á þessum bloggum..


http://www.redcarpet-fashionawards.com/Red Carpet Fashion Awards er líklega það blogg sem ég heimsæki oftast - og það er líklega eins gott að ég kíki á það nokkrum sinnum á dag vegna þess að konan sem stendur á bak við það, hún Catherine,  er mjög dugleg að setja inn nýjar færslur. Þetta blogg, eins og titillinn gefur til kynna, skoðar hverju stjörnurnar klæðast á rauða dreglinum, við hina ýmsu atburði og í daglegu lífi.
Mér finnst aðallega gaman að skoða það vegna þess hversu mikil vinna liggur á bak við það. Catherine man t.d. eftir því ef að kjóll hefur verið notaður áður, jafnvel þó það hafi verið mörgum mánuðum fyrr og gagnrýnin hennar á lúkkin er yfirleitt mjög rétt.

Mér finnst ég vera búin að læra mjög mikið inn á tísku og hina ýmsu hönnuði með því að fylgjast með blogginu. Það er líka áhugavert að skoða á hversu mismunandi hátt stjörnurnar tækla tískuheiminn. Sumar eru mjög virkar í því að kynna nýja og spennandi hönnuði, aðrar halda sig við stelpulega blúndukjóla eða eru alltaf í fötum eftir sama hönnuðinn og enn aðrar reyna að fara minimalísku leiðina og sleppa allri blúndu og pallíettum.Í lok hverrar viku eru svo bestu outfittin tekin saman og hægt að kjósa uppáhaldið sitt.

Mér finnst líka áhugavert að fylgjast með samfélaginu sem hefur myndast í kringum þessa síðu. Catherine var t.d boðið í Óskarspartý í ár og hönnuðurinn Roland Mouret bauðst til þess að sérhanna á hana kjól. Hann teiknaði fjórar skissur að kjól sem lesendurnir máttu svo kjósa um. Síðan var kosið um efni og lit kjólsins, skónna, töskuna, skartgripina, hárgreiðsluna og já, líka förðunina. Það var ótrúlega spennandi að fylgjast með þessu og ég var t.d. miklu spenntari að sjá Catherine á rauða dreglinum heldur en leikkonurnar sem voru tilnefndar til Óskarsins. Hún var líka ótrúlega fín og ég var eiginlega smá stolt af því hversu vel hún leit út, eins fáránlega og það hljómar.

Mér finnst svo skemmtilegt hvað síðan hennar er fjölbreytt og lífleg, þrátt fyrir að vera takmörkuð við það að skoða hverju fræga fólkið klæðist.
P.s. Ég tók bara lélegar símamyndir í Róm þannig að ef þið viljið sjá almennilegar og gorgeous myndir, þá er Dóra búin að vera að hrúga þeim inn á bloggið sitt: www.simpleshadows.blogspot.com


bloomin'


 Fyrir.. augljóslega.


Ég keypti þessar "stutt"buxur einhvern tímann í Frúnni í Hamborg minnir mig og ég notaði þær alveg nokkuð mikið í sinni upprunalegu mynd og fannst ég bara vera frekar sæt í þeim.. Sem betur fer týndust þær einhvern tímann inn í skáp því þegar ég rakst á þær nokkrum mánuðum seinna þá rann upp fyrir mér hversu hræðilegar þær eru í raun og veru. Þeim var því umsvifalaust hent í breytingakassann minn og þaðan dró ég þær svo upp í sumar.

Ég byrjaði á því að stytta þær og var nokkuð sátt þegar því var lokið. Hins vegar átti ég svo mikið efni afgangs eftir styttinguna að ég ákvað að prófa að búa til stuttan topp. Það var vandræðalega auðvelt því önnur afklippta skálmin passaði svona fínt á mig. Ég klippti smá efnislengjur af hinni skálminni til þess að nota sem hlýra og saumaði þá í kross að aftan.


Eftir og húrra fyrir vandræðalegum sjálfsmyndu,.


Útkoman er því tvær ágætar flíkur sem ég get notað á ýmsa vegu (þó ég sé ekki svo viss um að ég sé nógu frækin til þess að nota þær saman) upp úr einu pari af hræðilegum hálfbuxum. Frekar fín efnisnýting, svona þegar mið er tekið af því að ég á ennþá meirihlutann eftir af annarri skálminni sem ég get nýtt í eitthvað annað seinna!


5.10.13

Georgie

Ég veit að maður á eiginlega ekki að velja uppáhöld en Georgie er samt í uppáhaldi hjá mér (John fylgir þó fljótt á eftir í öðru sæti).
Þetta er fullkomið feel-good lag og ég elska að hlusta á það þegar ég er föst inni í sápukúlunni minni, hvort sem ég er að föndra eitthvað, hanga í tölvunni eða bara almennt að íhuga hlutina.

4.10.13

mamma og menið


Ég bjó til hálsmen úr leðurbútum einhvern tímann í sumar sem mamma varð mjög hrifin af. Hún pantaði hjá mér eitt svoleiðis hálsmen nema hvað hún vildi hafa sitt aðeins minna í sniðinu. Ég dreif mig í að klippa út leður og setti saman handa henni nema hvað ég hafði ekki tíma til þess að festa keðjuna á. 
Svo fór næstum því tilbúna hálsmenið ofan í föndurtöskuna mína og gleymdist. Mamma var í raun mjög heppin að ég hafi fundið menið aftur vegna þess að sumir* hlutir sem fara ofan í föndurtöskuna mína sjá dagsljós aldrei framar. 
Kvöldið áður en ég hélt suður þá dreif ég mig svo í því að setja keðju og festingu á hálsmenið og færði mömmu að gjöf.
Það gekk þó ekki alveg möglunarlaust fyrir sig að fá mömmu til þess að pósa fyrir þessar myndir en sem betur fer gekk þetta á endanum og núna á ég yndislegar myndir af henni sem ég get skoðað þegar heimþráin fer að gera vart við sig ;) *eh, flestir.

28.9.13

stripes!
Þegar ég loksins hef mig í það að taka til í fataskápnum mínum, þá finnst mér það yfirleitt frekar gaman. Ég uppgötva yfirleitt einhvern bol eða jafnvel kjól sem ég var löngu búin að gleyma að ég hefði nokkurn tímann átt og það er næstum því eins skemmtilegt og að kaupa ný föt.
Um daginn fór ég í gegnum skápinn minn til þess að ákveða hvaða flíkur fá að fylgja mér til Ítalíu og þá komst ég að því að ég á furðulega mikið af röndóttum fötum.
Mér finnst það aðallega fyndið vegna þess að þetta eru allt flíkur sem ég nota reglulega en samt hef ég ekki náð að tengja það saman áður hvað þetta er mikið af röndum.
Flestir eiga fataskáp fullan af svörtum fötum á meðan ég kaupi mjög lítið af fötum í þeim lit. Mér finnst alltaf eins og ég eigi svo mikið af þeim þannig að ég kaupi yfirleitt einhvern lit eða munstur. Afleiðingin af þessu er að ég á örugglega meira af röndóttum fötum heldur en svörtum.
Hins vegar á ég bara eina doppótta flík og hún er lítið notuð. Doppur virka bara alltaf svo krúttlegar og ég er hætt að heillast af krúttlegum fötum. Rendur eru miklu harðari. Djók.
Samt held ég að það sé skemmtilegt og ákveðin áskorun falin í því að reyna að blanda doppum og röndum og ná að forðast það að líta út fyrir að vera fimm ára.. Prófa það kannski ef ég finn einhvern tímann hina fullkomnu doppóttu flík (þó að pilsið á myndinni komist ansi nálægt því, hmm)

24.9.13

lagið


Ég held að ég muni aldrei fá leið á þessu lagi. Það á einhvern veginn alltaf svo vel við.

18.9.13

hárið


Síðasta mánudag gerði ég svolítið sem ég hef aldrei gert áður.. Ég pantaði mér tíma í klippingu og litun. Og nei, það eru engin verðlaun í boði fyrir þann sem giskar rétt á hvað ég ætla að gera við hárið á mér.. 
Ég er í rauninni frekar hissa á að hafa ekki ráðist á hárið á mér fyrr.. Ég hef greinilega tekið the rebellion út í gegnum tattú og gatanir á eyrum og andliti en ég hef ekki bætt neitt í safnið síðan í júní þannig að mér finnst alveg vera kominn tími á að gefa foreldrum mínum smá áfall, heh.Ég hef alltaf verið nokkuð sátt við rauða hárið mitt - smá gaman að geta borið mig saman við Önnu í Grænuhlíð og svo hefur líka alltaf verið frekar auðvelt fyrir fólk að átta sig á ætterni mínu en samt.. Anna var tæknilega séð með kastaníubrúnt hár á meðan mitt er ljósrautt og mér finnst liturinn minn oftast vera frekar flatur og óspennandi. Ég hef alla vega ekki verið kölluð gulrót nærri því eins oft og ég hefði viljað (en samt helst bara af Gilberti). Fyrir utan hvað það eru margir aðrir litir sem passa ekki við rauða hárið mitt! Mig dreymir t.d. um að geta gengið með rauðan varalit..Æh, ég veit það ekki. Ég er komin með fiðring í magann vegna morgundagsins og litunarinnar óhugnanlegu en ég get samt eiginlega ekki hætt við núna. Mig langar líka ekkert til þess að hætta við ;)
Vinkonur mínar verða örugglega mjög fegnar þegar ég læt loksins verða af þessu því þá þurfa þær ekki lengur að hlusta á mig eða skoða svona fimmtíu myndir af ljóshærðum módelum á dag.. Ef ég dríf ekki í þessu þá fer þessi klipping bráðum að verða umtalaðri en Miley Cyrus.Það er eitthvað svo stílhreint við ljóst-næstum-því-hvítt hár sem ég heillast af. Það er næstum því eins og autt blað því þá þarf ekki að miða restina af útlitinu við afgerandi hárlit. 
 Eftir því sem ég fullorðnast þá finn ég að ég dregst alltaf meira og meira að þessu einfalda lúkki sem samanstendur aðallega af brakandi ferskum litum og sportlegum einfaldleika. Ég er jafnvel ómeðvitað byrjuð á því að færa fataskápinn minn í þá áttina og þá gengur rauða hárið eiginlega ekki alveg upp.. Eða kannski er ég bara að segja sjálfri mér það svo ég nái að mana mig upp í að gera eitthvað nýtt og öðruvísi - sem er svo sem alveg í lagi!


Verð ég ekki örugglega svona kúl þegar ég verð komin með ljóst hár? Eh


Hverju sem því líður þá, eftir tæplega sólarhring, mun ég kveðja rauðu lokkana í bili og snarast svo í næstu búð og kaupi mér rauðan varalit! 


p.s. Ég geri mér grein fyrir því að það sé frekar yfirborðskennt að skrifa svona mikið um það að breyta hárlit haha

Update: Veit ekki alveg hvað gerðist en ég held að konan sem litaði mig hafi kannski ekki alveg verið með það á hreinu hvað hún var að gera. Ég er alla vega ekki orðin ljóshærð heldur bara meira ljósrauðhærð.. sem var eiginlega það sem ég vildi forðast með því að lita hárið til að byrja með. Ahh.. 
Óska eftir einhverjum til þess að lita á mér hárið með pakkalit! ;)

vestið


Ég er ekki beint þekkt fyrir að sýna mikla þolinmæði í hinu daglega lífi og stundum held ég að það sé vegna þess að ég nota allan minn skammt af þolinmæði í fáránlega tímafrek og nákvæm verkefni eins og t.d. þetta vesti eða leðurpilsið góða. 

Þetta vesti gerði ég sem lokaverkefni í áfanganum textílhönnun sem ég tók í MA. Ég gat auðvitað ekki farið beinu leiðina og prjónað vettlinga eða eitthvað.. neinei.. Sólrún ákvað að hekla u.þ.b. 30 dúllur, sauma þær svo saman og vona að einhvern veginn yrði til fullkomin hippaleg-en-samt-ekki-of flík úr því.


 

Ó, og var ég búin að minnast á að leiðbeiningarnar voru á sænsku? Eða norsku kannski.. Alla vega einhverju tungumáli sem er erfiðara en danska en léttara en finnska. Þetta er fyrsta prufan sem ég gerði með alltof grófri heklunál. Ég þurfti að ganga frá tveimur endum á hverri dúllu og svo að minnsta kosti fjórum endum þegar ég saumaði tvær og tvær saman. Það verður samanlagt að mörgum endum sem þarf að ganga frá en ég trúði á þetta vesti og varð að lokum mjög ánægð með útkomuna!En ókei, ég veit að ég kvarta mikið en sannleikurinn er sá að það var virkilega gaman að búa vestið til. Eftir að ég var búin að gera 10 dúllur þá kunni ég uppskriftina utan að sem flýtti ótrúlega mikið fyrir mér og eftir nokkrar dúllur í viðbót þá þurfti ég ekki lengur að hafa heklunálina alveg undir nefinu á mér og gat þar með horft á eitthvað á meðan ég dundaði mér við heklið. 

Ég veit ekki með aðra, en ég verð alltaf stoltari og ánægðari með hvert verkefni eftir því hversu löngum tíma ég eyði í það og hversu mikil nákvæmnisvinna hefur farið í það... Það er kannski þess vegna sem ég vel mér oft svona tímafrek verkefni, hmm?Og ef þið þurfið frekari sönnun á því að ég sé klikkuð, þá get ég alveg eins játað að ég hef oft íhugað að hekla annað svona vesti.. nema bara úr öðruvísi garni og kannski í einhverjum lit (væri kannski fínt flugvéla-og milliflugsbiðarverkefni?).
Það er bara verst að ég man ekki lengur leiðbeiningarnar að dúllunum og þarf þá að þræla mér í gegnum þær aftur og vona að användes þýði það sem ég held að það þýði..12.9.13

blúndan


Stundum fer ég með hlutina út í öfgar. Núna get ég ekki neitað mér um leður til þess að vinna með en fyrir nokkrum árum beindist þessi þráhyggja að blúnduefnum. Alltaf þegar ég rakst á fallega blúndu á útsölu þá varð ég að kippa með mér svona eins og einum metra.. eða tveimur, heh.
Afleiðingin af þessu er að núna á ég fullt af ólíkum blúndum í ólíkum litum og þrátt fyrir að ég sé búin að nota þær í nokkur verkefni, þá á ég stafla af afgöngum einhvers staðar ofan í kassa. Það er varla nóg af hverri blúndu fyrir sig til þess að búa til eitthvað fallegt en kannski get ég stolið hugmyndinni frá ss2014 línunni frá Candela og blandað þeim saman? 

..sjáum hvernig það fer.

10.9.13

lagið
Það er kannski ekki svo góð hugmynd að hlusta á systurnar í Haim og horfa á myndböndin þeirra þegar það er svona grámóskulegt úti.. Núna langar mig mest til þess að flýja til Los Angeles, safna hári og læra að spila á bassa. 

Hildur og Sigurdís, hvað segiði um að stofna hljómsveit? Eh ;)

9.9.13

leðurpilsið


Ég man ekki hvar ég fann þetta leðurpils en einhvern veginn grunar mig að það hafi verið í Rauða krossinum. Ég skal alveg viðurkenna að þetta virka fáránleg kaup en samt gat ég ekki gengið í burtu frá öllu þessu leðri - ég meina, sjáið lengdina á þessu pilsi! 

Hvar er rússneski sirkusinn?

Alla vega, á þessum tíma blunduðu í mér hugmyndir um skartgripi úr leðri (meira um þá seinna) og ég hugsaði með mér að ef ég næ ekki að gera fallegt pils úr þessu leðurtjaldi, þá skiptir það ekki miklu því það verður hvort sem er svo mikill afgangur sem ég get nýtt í eitthvað skemmtilegt.

Pilsið var líka of vítt á mig og var almennt bara mjög unflattering. Ég byrjaði á því að stytta það um nánast einn þriðja og svo skar ég út munstur við neðri faldinn. Ég valdi að skera út rétthyrninga í tveimur röðum og hafði kassana í efri röðinni aðeins styttri en í þeirri neðri. Það hefði verið þægilegast að nota dúkahníf en þar sem svoleiðis græja fannst ekki á heimilinu, þá notaðist ég við eplahníf með beittum oddi. 
Mörgum þáttum af Breaking Bad og mjög aumum fingrum seinna, þá var ég búin með hringinn. Það voru tveir flipar með tölum í mittinu á pilsinu þannig að til þess að þrengja pilsið, þá klippti ég tölurnar af og saumaði þær svo aftur á mun innar en þær voru upphaflega. Af öllu ferlinu held ég að þetta hafi verið erfiðast. Fingurgómarnir voru orðnir alvarlega aumir eftir allan útskurðinn og það var ekki þægilegt að reyna að ýta á eftir nál í gegnum tvöfalt leður. 
Ég hefði nú svo sem alveg getað gefið puttunum frí og beðið til morguns með að klára pilsið en ég var orðin svo spennt að sjá hvernig það hefði heppnast að ég varð að klára!Þetta var afskaplega tímafrekt ferli en ég er samt svo ánægð með pilsið mitt að mér finnst það hafa verið þess virði! Ég ætla að nota það eins og brjálæðingur í september og helst fá svo mikið leið á því að ég verði ekkert sorgmædd yfir því að geta ekki tekið það með út (leður er nefnilega svolítið þungt). Oh well..


2.9.13

upphafið

Ég elska að búa til hluti. 

Síðustu ár hef ég búið til margar flíkur, óteljandi hálsmen, armbönd, tekið gamla kjóla í gegn og búið til svo marga skartgripi úr keðjum að starfsmennirnir í Byko eru farnir að kannast við mig þegar ég kem í keðjuinnkaup (sem er smá vandró, heh).
Vandamálið er bara að þegar ég er búin að búa til eitthvað, þá fer það annað hvort inn í fataskáp eða í skókassann þar sem ég geymi hluta af skartgripasafninu mínu og er því í mikilli hættu á því að gleymast algjörlega.

Og þá erum við komin að tilganginum með þessu bloggi - að fá nokkurn veginn gott yfirlit yfir allt það sem ég er að dunda mér við að búa til, sauma, breyta eða bara hvað sem mér dettur í hug að gera!

En þetta er þó ekki eini tilgangurinn. 
Ég á frekar gamla og veikbyggða tölvu sem ég hef ekki mikla trú á að endist mikið lengur. Ég er búin að búa mér til safn af myndum sem gefa mér hugmyndir (eða eru bara fallegar) og það væri leiðinlegt ef þær myndu týnast. 
Þess vegna langar mig líka til þess að skella þeim hingað inn og þá get ég verið örugg um að eiga þær einhvers staðar.

Þessi síða er engan veginn fullkomin og flestar myndirnar frá mér verða símamyndir þar sem ég á ekki myndavél - en eins og ég segi, þá er þetta aðallega gert fyrir mig. 

Mig langar í góða skrá yfir það sem ég bý til og innblásturinn minn og ég held að það sé auðveldast að gera það á þessu formi. Ef aðrir nenna að lesa þetta (Dóra telst ekki með) þá er það náttúrulega bara frábært líka og ekki vera feimin við að skilja eftir spor!

Og hver veit - kannski hendi ég líka inn lögum sem ég elska eða bendi á bíómyndir sem gleðja mig.. og seinna meir þá kemur kannski eitthvað um Ítalíu-ævintýrið. Húrra!


ást&friður