28.9.13

stripes!
Þegar ég loksins hef mig í það að taka til í fataskápnum mínum, þá finnst mér það yfirleitt frekar gaman. Ég uppgötva yfirleitt einhvern bol eða jafnvel kjól sem ég var löngu búin að gleyma að ég hefði nokkurn tímann átt og það er næstum því eins skemmtilegt og að kaupa ný föt.
Um daginn fór ég í gegnum skápinn minn til þess að ákveða hvaða flíkur fá að fylgja mér til Ítalíu og þá komst ég að því að ég á furðulega mikið af röndóttum fötum.
Mér finnst það aðallega fyndið vegna þess að þetta eru allt flíkur sem ég nota reglulega en samt hef ég ekki náð að tengja það saman áður hvað þetta er mikið af röndum.
Flestir eiga fataskáp fullan af svörtum fötum á meðan ég kaupi mjög lítið af fötum í þeim lit. Mér finnst alltaf eins og ég eigi svo mikið af þeim þannig að ég kaupi yfirleitt einhvern lit eða munstur. Afleiðingin af þessu er að ég á örugglega meira af röndóttum fötum heldur en svörtum.
Hins vegar á ég bara eina doppótta flík og hún er lítið notuð. Doppur virka bara alltaf svo krúttlegar og ég er hætt að heillast af krúttlegum fötum. Rendur eru miklu harðari. Djók.
Samt held ég að það sé skemmtilegt og ákveðin áskorun falin í því að reyna að blanda doppum og röndum og ná að forðast það að líta út fyrir að vera fimm ára.. Prófa það kannski ef ég finn einhvern tímann hina fullkomnu doppóttu flík (þó að pilsið á myndinni komist ansi nálægt því, hmm)

24.9.13

lagið


Ég held að ég muni aldrei fá leið á þessu lagi. Það á einhvern veginn alltaf svo vel við.

18.9.13

hárið


Síðasta mánudag gerði ég svolítið sem ég hef aldrei gert áður.. Ég pantaði mér tíma í klippingu og litun. Og nei, það eru engin verðlaun í boði fyrir þann sem giskar rétt á hvað ég ætla að gera við hárið á mér.. 
Ég er í rauninni frekar hissa á að hafa ekki ráðist á hárið á mér fyrr.. Ég hef greinilega tekið the rebellion út í gegnum tattú og gatanir á eyrum og andliti en ég hef ekki bætt neitt í safnið síðan í júní þannig að mér finnst alveg vera kominn tími á að gefa foreldrum mínum smá áfall, heh.Ég hef alltaf verið nokkuð sátt við rauða hárið mitt - smá gaman að geta borið mig saman við Önnu í Grænuhlíð og svo hefur líka alltaf verið frekar auðvelt fyrir fólk að átta sig á ætterni mínu en samt.. Anna var tæknilega séð með kastaníubrúnt hár á meðan mitt er ljósrautt og mér finnst liturinn minn oftast vera frekar flatur og óspennandi. Ég hef alla vega ekki verið kölluð gulrót nærri því eins oft og ég hefði viljað (en samt helst bara af Gilberti). Fyrir utan hvað það eru margir aðrir litir sem passa ekki við rauða hárið mitt! Mig dreymir t.d. um að geta gengið með rauðan varalit..Æh, ég veit það ekki. Ég er komin með fiðring í magann vegna morgundagsins og litunarinnar óhugnanlegu en ég get samt eiginlega ekki hætt við núna. Mig langar líka ekkert til þess að hætta við ;)
Vinkonur mínar verða örugglega mjög fegnar þegar ég læt loksins verða af þessu því þá þurfa þær ekki lengur að hlusta á mig eða skoða svona fimmtíu myndir af ljóshærðum módelum á dag.. Ef ég dríf ekki í þessu þá fer þessi klipping bráðum að verða umtalaðri en Miley Cyrus.Það er eitthvað svo stílhreint við ljóst-næstum-því-hvítt hár sem ég heillast af. Það er næstum því eins og autt blað því þá þarf ekki að miða restina af útlitinu við afgerandi hárlit. 
 Eftir því sem ég fullorðnast þá finn ég að ég dregst alltaf meira og meira að þessu einfalda lúkki sem samanstendur aðallega af brakandi ferskum litum og sportlegum einfaldleika. Ég er jafnvel ómeðvitað byrjuð á því að færa fataskápinn minn í þá áttina og þá gengur rauða hárið eiginlega ekki alveg upp.. Eða kannski er ég bara að segja sjálfri mér það svo ég nái að mana mig upp í að gera eitthvað nýtt og öðruvísi - sem er svo sem alveg í lagi!


Verð ég ekki örugglega svona kúl þegar ég verð komin með ljóst hár? Eh


Hverju sem því líður þá, eftir tæplega sólarhring, mun ég kveðja rauðu lokkana í bili og snarast svo í næstu búð og kaupi mér rauðan varalit! 


p.s. Ég geri mér grein fyrir því að það sé frekar yfirborðskennt að skrifa svona mikið um það að breyta hárlit haha

Update: Veit ekki alveg hvað gerðist en ég held að konan sem litaði mig hafi kannski ekki alveg verið með það á hreinu hvað hún var að gera. Ég er alla vega ekki orðin ljóshærð heldur bara meira ljósrauðhærð.. sem var eiginlega það sem ég vildi forðast með því að lita hárið til að byrja með. Ahh.. 
Óska eftir einhverjum til þess að lita á mér hárið með pakkalit! ;)

vestið


Ég er ekki beint þekkt fyrir að sýna mikla þolinmæði í hinu daglega lífi og stundum held ég að það sé vegna þess að ég nota allan minn skammt af þolinmæði í fáránlega tímafrek og nákvæm verkefni eins og t.d. þetta vesti eða leðurpilsið góða. 

Þetta vesti gerði ég sem lokaverkefni í áfanganum textílhönnun sem ég tók í MA. Ég gat auðvitað ekki farið beinu leiðina og prjónað vettlinga eða eitthvað.. neinei.. Sólrún ákvað að hekla u.þ.b. 30 dúllur, sauma þær svo saman og vona að einhvern veginn yrði til fullkomin hippaleg-en-samt-ekki-of flík úr því.


 

Ó, og var ég búin að minnast á að leiðbeiningarnar voru á sænsku? Eða norsku kannski.. Alla vega einhverju tungumáli sem er erfiðara en danska en léttara en finnska. Þetta er fyrsta prufan sem ég gerði með alltof grófri heklunál. Ég þurfti að ganga frá tveimur endum á hverri dúllu og svo að minnsta kosti fjórum endum þegar ég saumaði tvær og tvær saman. Það verður samanlagt að mörgum endum sem þarf að ganga frá en ég trúði á þetta vesti og varð að lokum mjög ánægð með útkomuna!En ókei, ég veit að ég kvarta mikið en sannleikurinn er sá að það var virkilega gaman að búa vestið til. Eftir að ég var búin að gera 10 dúllur þá kunni ég uppskriftina utan að sem flýtti ótrúlega mikið fyrir mér og eftir nokkrar dúllur í viðbót þá þurfti ég ekki lengur að hafa heklunálina alveg undir nefinu á mér og gat þar með horft á eitthvað á meðan ég dundaði mér við heklið. 

Ég veit ekki með aðra, en ég verð alltaf stoltari og ánægðari með hvert verkefni eftir því hversu löngum tíma ég eyði í það og hversu mikil nákvæmnisvinna hefur farið í það... Það er kannski þess vegna sem ég vel mér oft svona tímafrek verkefni, hmm?Og ef þið þurfið frekari sönnun á því að ég sé klikkuð, þá get ég alveg eins játað að ég hef oft íhugað að hekla annað svona vesti.. nema bara úr öðruvísi garni og kannski í einhverjum lit (væri kannski fínt flugvéla-og milliflugsbiðarverkefni?).
Það er bara verst að ég man ekki lengur leiðbeiningarnar að dúllunum og þarf þá að þræla mér í gegnum þær aftur og vona að användes þýði það sem ég held að það þýði..12.9.13

blúndan


Stundum fer ég með hlutina út í öfgar. Núna get ég ekki neitað mér um leður til þess að vinna með en fyrir nokkrum árum beindist þessi þráhyggja að blúnduefnum. Alltaf þegar ég rakst á fallega blúndu á útsölu þá varð ég að kippa með mér svona eins og einum metra.. eða tveimur, heh.
Afleiðingin af þessu er að núna á ég fullt af ólíkum blúndum í ólíkum litum og þrátt fyrir að ég sé búin að nota þær í nokkur verkefni, þá á ég stafla af afgöngum einhvers staðar ofan í kassa. Það er varla nóg af hverri blúndu fyrir sig til þess að búa til eitthvað fallegt en kannski get ég stolið hugmyndinni frá ss2014 línunni frá Candela og blandað þeim saman? 

..sjáum hvernig það fer.

10.9.13

lagið
Það er kannski ekki svo góð hugmynd að hlusta á systurnar í Haim og horfa á myndböndin þeirra þegar það er svona grámóskulegt úti.. Núna langar mig mest til þess að flýja til Los Angeles, safna hári og læra að spila á bassa. 

Hildur og Sigurdís, hvað segiði um að stofna hljómsveit? Eh ;)

9.9.13

leðurpilsið


Ég man ekki hvar ég fann þetta leðurpils en einhvern veginn grunar mig að það hafi verið í Rauða krossinum. Ég skal alveg viðurkenna að þetta virka fáránleg kaup en samt gat ég ekki gengið í burtu frá öllu þessu leðri - ég meina, sjáið lengdina á þessu pilsi! 

Hvar er rússneski sirkusinn?

Alla vega, á þessum tíma blunduðu í mér hugmyndir um skartgripi úr leðri (meira um þá seinna) og ég hugsaði með mér að ef ég næ ekki að gera fallegt pils úr þessu leðurtjaldi, þá skiptir það ekki miklu því það verður hvort sem er svo mikill afgangur sem ég get nýtt í eitthvað skemmtilegt.

Pilsið var líka of vítt á mig og var almennt bara mjög unflattering. Ég byrjaði á því að stytta það um nánast einn þriðja og svo skar ég út munstur við neðri faldinn. Ég valdi að skera út rétthyrninga í tveimur röðum og hafði kassana í efri röðinni aðeins styttri en í þeirri neðri. Það hefði verið þægilegast að nota dúkahníf en þar sem svoleiðis græja fannst ekki á heimilinu, þá notaðist ég við eplahníf með beittum oddi. 
Mörgum þáttum af Breaking Bad og mjög aumum fingrum seinna, þá var ég búin með hringinn. Það voru tveir flipar með tölum í mittinu á pilsinu þannig að til þess að þrengja pilsið, þá klippti ég tölurnar af og saumaði þær svo aftur á mun innar en þær voru upphaflega. Af öllu ferlinu held ég að þetta hafi verið erfiðast. Fingurgómarnir voru orðnir alvarlega aumir eftir allan útskurðinn og það var ekki þægilegt að reyna að ýta á eftir nál í gegnum tvöfalt leður. 
Ég hefði nú svo sem alveg getað gefið puttunum frí og beðið til morguns með að klára pilsið en ég var orðin svo spennt að sjá hvernig það hefði heppnast að ég varð að klára!Þetta var afskaplega tímafrekt ferli en ég er samt svo ánægð með pilsið mitt að mér finnst það hafa verið þess virði! Ég ætla að nota það eins og brjálæðingur í september og helst fá svo mikið leið á því að ég verði ekkert sorgmædd yfir því að geta ekki tekið það með út (leður er nefnilega svolítið þungt). Oh well..


2.9.13

upphafið

Ég elska að búa til hluti. 

Síðustu ár hef ég búið til margar flíkur, óteljandi hálsmen, armbönd, tekið gamla kjóla í gegn og búið til svo marga skartgripi úr keðjum að starfsmennirnir í Byko eru farnir að kannast við mig þegar ég kem í keðjuinnkaup (sem er smá vandró, heh).
Vandamálið er bara að þegar ég er búin að búa til eitthvað, þá fer það annað hvort inn í fataskáp eða í skókassann þar sem ég geymi hluta af skartgripasafninu mínu og er því í mikilli hættu á því að gleymast algjörlega.

Og þá erum við komin að tilganginum með þessu bloggi - að fá nokkurn veginn gott yfirlit yfir allt það sem ég er að dunda mér við að búa til, sauma, breyta eða bara hvað sem mér dettur í hug að gera!

En þetta er þó ekki eini tilgangurinn. 
Ég á frekar gamla og veikbyggða tölvu sem ég hef ekki mikla trú á að endist mikið lengur. Ég er búin að búa mér til safn af myndum sem gefa mér hugmyndir (eða eru bara fallegar) og það væri leiðinlegt ef þær myndu týnast. 
Þess vegna langar mig líka til þess að skella þeim hingað inn og þá get ég verið örugg um að eiga þær einhvers staðar.

Þessi síða er engan veginn fullkomin og flestar myndirnar frá mér verða símamyndir þar sem ég á ekki myndavél - en eins og ég segi, þá er þetta aðallega gert fyrir mig. 

Mig langar í góða skrá yfir það sem ég bý til og innblásturinn minn og ég held að það sé auðveldast að gera það á þessu formi. Ef aðrir nenna að lesa þetta (Dóra telst ekki með) þá er það náttúrulega bara frábært líka og ekki vera feimin við að skilja eftir spor!

Og hver veit - kannski hendi ég líka inn lögum sem ég elska eða bendi á bíómyndir sem gleðja mig.. og seinna meir þá kemur kannski eitthvað um Ítalíu-ævintýrið. Húrra!


ást&friður