18.9.13

vestið


Ég er ekki beint þekkt fyrir að sýna mikla þolinmæði í hinu daglega lífi og stundum held ég að það sé vegna þess að ég nota allan minn skammt af þolinmæði í fáránlega tímafrek og nákvæm verkefni eins og t.d. þetta vesti eða leðurpilsið góða. 

Þetta vesti gerði ég sem lokaverkefni í áfanganum textílhönnun sem ég tók í MA. Ég gat auðvitað ekki farið beinu leiðina og prjónað vettlinga eða eitthvað.. neinei.. Sólrún ákvað að hekla u.þ.b. 30 dúllur, sauma þær svo saman og vona að einhvern veginn yrði til fullkomin hippaleg-en-samt-ekki-of flík úr því.


 

Ó, og var ég búin að minnast á að leiðbeiningarnar voru á sænsku? Eða norsku kannski.. Alla vega einhverju tungumáli sem er erfiðara en danska en léttara en finnska. 



Þetta er fyrsta prufan sem ég gerði með alltof grófri heklunál. Ég þurfti að ganga frá tveimur endum á hverri dúllu og svo að minnsta kosti fjórum endum þegar ég saumaði tvær og tvær saman. Það verður samanlagt að mörgum endum sem þarf að ganga frá en ég trúði á þetta vesti og varð að lokum mjög ánægð með útkomuna!



En ókei, ég veit að ég kvarta mikið en sannleikurinn er sá að það var virkilega gaman að búa vestið til. Eftir að ég var búin að gera 10 dúllur þá kunni ég uppskriftina utan að sem flýtti ótrúlega mikið fyrir mér og eftir nokkrar dúllur í viðbót þá þurfti ég ekki lengur að hafa heklunálina alveg undir nefinu á mér og gat þar með horft á eitthvað á meðan ég dundaði mér við heklið. 

Ég veit ekki með aðra, en ég verð alltaf stoltari og ánægðari með hvert verkefni eftir því hversu löngum tíma ég eyði í það og hversu mikil nákvæmnisvinna hefur farið í það... Það er kannski þess vegna sem ég vel mér oft svona tímafrek verkefni, hmm?



Og ef þið þurfið frekari sönnun á því að ég sé klikkuð, þá get ég alveg eins játað að ég hef oft íhugað að hekla annað svona vesti.. nema bara úr öðruvísi garni og kannski í einhverjum lit (væri kannski fínt flugvéla-og milliflugsbiðarverkefni?).
Það er bara verst að ég man ekki lengur leiðbeiningarnar að dúllunum og þarf þá að þræla mér í gegnum þær aftur og vona að användes þýði það sem ég held að það þýði..



2 ummæli:

  1. ....fínt flugvéla-og milliflugbiðsverkefni - svo lengi sem þú ögrar ekki olbogaplássinu mínu í vélinni!

    SvaraEyða
    Svör
    1. fyrstur kemur, fyrstur fær plássið - manstu? ;)

      Eyða