27.10.13

aluminium



 Kate Bosworth hannaði (eða setti nafnið sitt á) nýja línu fyrir Topshop og Jeremías hvað ég er búin að bölva því mikið að Topshop sé ekki hér í Mílanó! Veit ekki hvað það er við þessar silfruðu flíkur sem láta mig fara í kollhnísa í huganum en ég veit þó að þær myndu lífga alvarlega upp á fataskápinn minn.




25.10.13

broskiprur

Ég er ekki hress á morgnana. Þarna, ég viðurkenndi það. Þetta er eitthvað sem velflestir læra fljótt þegar þeir kynnast mér og reyna að halda uppi samræðum við mig þegar ég hef verið vakandi í tiltölulega stuttan tíma. Lengi vel var ég í mikilli afneitun og hélt því fram að ég væri bara frekar hress svona í morgunsárið.. en það er bara alls ekki raunin, Dóru og Gumma til mikillar gleði.

Í morgun skreið ég fram úr rúminu eftir alltof lítinn svefn og þrjú snooze. Eftir afskaplega kalda og kraftlitla sturtuferð bjó ég til hafragraut og barðist við að halda andlitunum á tveimur snargölnum, uppáþrengjandi og leiðinlegum köttum upp úr grautarskálinni minni. Þar næst klæddi ég mig í ljót og leiðinleg föt (það er allt ljótt og leiðinlegt á morgnana) og bjóst til þess að þramma í skólann með hendurnar djúpt ofan í vösum og Elliott Smith í eyrunum. Á síðustu stundu rak ég augun í þennan appelsínugula varalit sem ég hafði aldrei sett á mig áður og hugsaði með mér að hann gæti nú varla gert morguninn verri. 
Ég hafði rétt fyrir mér því um leið og liturinn var kominn varirnar fann ég að þær kipruðust upp í brosi. Ég er svo óvön brostilfinningu á morgnanna að ég ákvað að smella af myndum til þess að skjalfesta viðburðinn. 


  
























..Ég hef lúmskan grun um að þessi varalitur muni klárast fljótt..


 

24.10.13

textile trends


Skólinn er loksins kominn á fullt og honum fylgir auðvitað heimanám sem mér finnst nú eiginlega ekkert leiðinlegt að vera að stússast í að klára.. Fyrsta verkefnið sem mér var sett fyrir fólst í því að fara í gegnum sýningar hönnuða frá Fall/Winter 2013 línunum og gera tvær klippimyndir tileinkaðar sitthvoru textíltrendinu sem komu fram á tískupöllunum. 
Heimanám sem krefst þess að ég fari í gegnum tískusýningar? Ég held að ég sé búin að finna rétta námið..


Fyrri myndin er grá yfirlitum en þegar nær er að gáð, sést að öll efnin hér eru búin til með því að blanda saman hvítum og ýmsum blæbrigðum af svörtum og gráum til þess að skapa nýjan, gráan textíl. Mér finnst mjög áhugavert að sjá á hversu ólíkan hátt hönnuðir tækla þetta. Alexander Wang hannar t.d. bæði fyrir sitt eigið merki og svo líka Balenciaga. Hjá Alexander Wang verður efnisblöndunin að yrjóttu, steingráu efni en hjá Balenciaga verða áhrifin líkust marmara. Hann náði því að túlka þetta á tvo, mjög ólíka vegu.
Línan hjá Sportmax var full af þessum textílleik og ég hefði auðveldlega getað búið til myndina með því að nota bara föt frá þeim, en þá hefði ég ekki beint verið að fylgja verklýsingunni, heh.
Mér fannst ótrúlega gaman að grúska í þessu, enda er ég (eins og hún mamma) alltaf smá veik fyrir gráum lit. Ég verð þó að viðurkenna að eftir að hafa starað á þessi efni í langan tíma, þá voru augun mín orðin frekar vitlítil. 


Seinna þemað mitt var því kærkomin hvíld fyrir augun. Það er miklum mun þægilegra að rýna á mjúk flauelsefni sem falla á svo heillandi hátt heldur en dáleiðandi grá munstur. Ég valdi aðallega að fjalla um þetta trend vegna þess að ég hef ekki getað vikið fjólubláa skósíða kjólnum frá Alberta Ferretti úr huganum síðan hann var sýndur á tískupöllunum í febrúar. Flauel er oftast haft í dökkum, ríkum litum eins og smaragðsgrænum en mér finnst eiginlega skemmtilegra að sjá þegar flauel er notað í litum og sniðum sem eru ekki svo hefðbundin. Eða kannski er ég bara að segja þetta vegna þess að ég er vandræðalega skotin í gráa flauelinu hjá Marni..

Hvað sem því líður, þá er hér fyrsta verkefnið mitt fyrir IED.

14.10.13

sjálfstæðið



Æi, það er bara eitthvað við leður. 
Ég er nýlega farin að nota mjög mikið af leðri í skartgripina mína. Ég hugsa líka mikið um leður þegar ég skissa og flest fötin sem ég hanna í huganum innihalda það í einhverju magni.
Mér finnst samt smá fyndið að ég hafi fallið svona mikið fyrir þessu efni allt í einu - sérstaklega þegar tillit er tekið til þess að ég eignaðist minn fyrsta leðurjakka ekki fyrr en núna í sumar (eignast og ekki eignast samt.. held að ég sé tæknilega með hann í láni frá Sigurdísi, heh).


Leður er svo fjölbreytt. Hvítt eða steingrátt leður passar mun betur inn í hönnunarheiminn minn heldur en harkalegt svart leður en það er ekki hægt að neita því að svart leður er heillandi. 
Kannski heillast ég bara af því hversu sjálfstæður maður virkar þegar maður er í svörtu leðri á meðan ljóst leður dregur upp léttbærari mynd.


12.10.13

III


Það er ómögulegt að þekkja mig vel án þess að hafa það á hreinu að ég elska Jack White. Sólrún elskar Jack White. Ein af ófrávíkjanlegum staðreyndum alheimsins. Þannig er það bara.



Ég hef smá hikað við að byrja að skrifa um Jack White hér.. Ástæðan er aðallega sú að ég er hrædd um að ef ég byrja að koma orðum að ást minni á honum, þá muni ég aldrei hætta að tala um hann og að þetta blogg verði algjörlega tileinkað honum.

Ég ætla því að reyna að dreifa ástarjátningum mínum til hans yfir nokkra bloggpósta og reyna mitt besta til þess að halda mig við eðlilega skriflengd á bloggunum um hann.. Við sjáum svo til hvernig það mun ganga.

Málið er bara að Jack White hefur verið mjög stór og, eiginlega, óaðskiljanlegur partur af lífi mínu í næstum því átta ár og ég er ennþá jafn heilluð af honum núna og ég var þegar Sigurdís spilaði fyrst fyrir mig My Doorbell í skrifstofunni heima. Hún hefur líklega ekki búist við því hverju hún var að koma af stað með því að sakleysislega spila þetta lag fyrir mig.. Þetta sumar leið hjá án nokkurra eftirminnilegra viðburða en þó man ég að The White Stripes fylgdu mér næstum því hvert einasta skref - sérstaklega ef þessi skref voru tekin á milli rúlla til þess að ganga frá endum. Mp3 spilarinn þurfti að vinna yfirvinnu við að færa mér tóna Get Behind Me Satan plötunnar og hann fékk nú ekki mikið frí þegar ég uppgötvaði að The White Stripes höfðu þá þegar gefið út fjórar aðrar plötur.

Næstu árin fylgdist ég svo m.a. með honum gefa út aðra plötu með Meg, stofna tvær aðrar hljómsveitir og gefa út fjórar plötur samanlagt með þeim, stofna sitt eigið útgáfufyrirtæki og svo hefja sólóferil. Það er því af nógu efni að taka þegar fjalla á um Jack White og ég lofa að reyna að halda fangirling-inu mínu í lágmarki, heh.



p.s. Þið hafið ekki hugmynd um hversu erfitt það var að velja bara eitt lag..

10.10.13

í uppáhaldi


Eitt af því sem fylgdi flutningnum til Ítalíu var að vera netlaus í tvo daga. Það hljómar ekki eins og langur tími en það var samt komin undarleg óeirð í mig yfir að vera svona sambandslaus. Þegar ég fékk svo netið í tölvuna mína þá var náttúrulega rokið beint á facebook. Þegar ég var búin að skrolla yfir tveggja daga uppsafnaða efnið þá var komið að því að fara blogghringinn. Það sem mér finnst athyglisvert er að ég á nokkur uppáhaldsblogg og ég skoða þau alltaf í sömu röð.
Þetta fæddi af sér þá hugmynd að fjalla kannski aðeins um uppáhöldin mín því hreinskilnislega sagt, þá eyði ég vandræðalega miklum tíma á þessum bloggum..


http://www.redcarpet-fashionawards.com/



Red Carpet Fashion Awards er líklega það blogg sem ég heimsæki oftast - og það er líklega eins gott að ég kíki á það nokkrum sinnum á dag vegna þess að konan sem stendur á bak við það, hún Catherine,  er mjög dugleg að setja inn nýjar færslur. Þetta blogg, eins og titillinn gefur til kynna, skoðar hverju stjörnurnar klæðast á rauða dreglinum, við hina ýmsu atburði og í daglegu lífi.
Mér finnst aðallega gaman að skoða það vegna þess hversu mikil vinna liggur á bak við það. Catherine man t.d. eftir því ef að kjóll hefur verið notaður áður, jafnvel þó það hafi verið mörgum mánuðum fyrr og gagnrýnin hennar á lúkkin er yfirleitt mjög rétt.

Mér finnst ég vera búin að læra mjög mikið inn á tísku og hina ýmsu hönnuði með því að fylgjast með blogginu. Það er líka áhugavert að skoða á hversu mismunandi hátt stjörnurnar tækla tískuheiminn. Sumar eru mjög virkar í því að kynna nýja og spennandi hönnuði, aðrar halda sig við stelpulega blúndukjóla eða eru alltaf í fötum eftir sama hönnuðinn og enn aðrar reyna að fara minimalísku leiðina og sleppa allri blúndu og pallíettum.



Í lok hverrar viku eru svo bestu outfittin tekin saman og hægt að kjósa uppáhaldið sitt.

Mér finnst líka áhugavert að fylgjast með samfélaginu sem hefur myndast í kringum þessa síðu. Catherine var t.d boðið í Óskarspartý í ár og hönnuðurinn Roland Mouret bauðst til þess að sérhanna á hana kjól. Hann teiknaði fjórar skissur að kjól sem lesendurnir máttu svo kjósa um. Síðan var kosið um efni og lit kjólsins, skónna, töskuna, skartgripina, hárgreiðsluna og já, líka förðunina. Það var ótrúlega spennandi að fylgjast með þessu og ég var t.d. miklu spenntari að sjá Catherine á rauða dreglinum heldur en leikkonurnar sem voru tilnefndar til Óskarsins. Hún var líka ótrúlega fín og ég var eiginlega smá stolt af því hversu vel hún leit út, eins fáránlega og það hljómar.

Mér finnst svo skemmtilegt hvað síðan hennar er fjölbreytt og lífleg, þrátt fyrir að vera takmörkuð við það að skoða hverju fræga fólkið klæðist.




P.s. Ég tók bara lélegar símamyndir í Róm þannig að ef þið viljið sjá almennilegar og gorgeous myndir, þá er Dóra búin að vera að hrúga þeim inn á bloggið sitt: www.simpleshadows.blogspot.com


bloomin'


 Fyrir.. augljóslega.


Ég keypti þessar "stutt"buxur einhvern tímann í Frúnni í Hamborg minnir mig og ég notaði þær alveg nokkuð mikið í sinni upprunalegu mynd og fannst ég bara vera frekar sæt í þeim.. Sem betur fer týndust þær einhvern tímann inn í skáp því þegar ég rakst á þær nokkrum mánuðum seinna þá rann upp fyrir mér hversu hræðilegar þær eru í raun og veru. Þeim var því umsvifalaust hent í breytingakassann minn og þaðan dró ég þær svo upp í sumar.

Ég byrjaði á því að stytta þær og var nokkuð sátt þegar því var lokið. Hins vegar átti ég svo mikið efni afgangs eftir styttinguna að ég ákvað að prófa að búa til stuttan topp. Það var vandræðalega auðvelt því önnur afklippta skálmin passaði svona fínt á mig. Ég klippti smá efnislengjur af hinni skálminni til þess að nota sem hlýra og saumaði þá í kross að aftan.


Eftir og húrra fyrir vandræðalegum sjálfsmyndu,.


Útkoman er því tvær ágætar flíkur sem ég get notað á ýmsa vegu (þó ég sé ekki svo viss um að ég sé nógu frækin til þess að nota þær saman) upp úr einu pari af hræðilegum hálfbuxum. Frekar fín efnisnýting, svona þegar mið er tekið af því að ég á ennþá meirihlutann eftir af annarri skálminni sem ég get nýtt í eitthvað annað seinna!


5.10.13

Georgie





Ég veit að maður á eiginlega ekki að velja uppáhöld en Georgie er samt í uppáhaldi hjá mér (John fylgir þó fljótt á eftir í öðru sæti).
Þetta er fullkomið feel-good lag og ég elska að hlusta á það þegar ég er föst inni í sápukúlunni minni, hvort sem ég er að föndra eitthvað, hanga í tölvunni eða bara almennt að íhuga hlutina.

4.10.13

mamma og menið






Ég bjó til hálsmen úr leðurbútum einhvern tímann í sumar sem mamma varð mjög hrifin af. Hún pantaði hjá mér eitt svoleiðis hálsmen nema hvað hún vildi hafa sitt aðeins minna í sniðinu. Ég dreif mig í að klippa út leður og setti saman handa henni nema hvað ég hafði ekki tíma til þess að festa keðjuna á. 
Svo fór næstum því tilbúna hálsmenið ofan í föndurtöskuna mína og gleymdist. Mamma var í raun mjög heppin að ég hafi fundið menið aftur vegna þess að sumir* hlutir sem fara ofan í föndurtöskuna mína sjá dagsljós aldrei framar. 
Kvöldið áður en ég hélt suður þá dreif ég mig svo í því að setja keðju og festingu á hálsmenið og færði mömmu að gjöf.
Það gekk þó ekki alveg möglunarlaust fyrir sig að fá mömmu til þess að pósa fyrir þessar myndir en sem betur fer gekk þetta á endanum og núna á ég yndislegar myndir af henni sem ég get skoðað þegar heimþráin fer að gera vart við sig ;)



 *eh, flestir.