24.10.13

textile trends


Skólinn er loksins kominn á fullt og honum fylgir auðvitað heimanám sem mér finnst nú eiginlega ekkert leiðinlegt að vera að stússast í að klára.. Fyrsta verkefnið sem mér var sett fyrir fólst í því að fara í gegnum sýningar hönnuða frá Fall/Winter 2013 línunum og gera tvær klippimyndir tileinkaðar sitthvoru textíltrendinu sem komu fram á tískupöllunum. 
Heimanám sem krefst þess að ég fari í gegnum tískusýningar? Ég held að ég sé búin að finna rétta námið..


Fyrri myndin er grá yfirlitum en þegar nær er að gáð, sést að öll efnin hér eru búin til með því að blanda saman hvítum og ýmsum blæbrigðum af svörtum og gráum til þess að skapa nýjan, gráan textíl. Mér finnst mjög áhugavert að sjá á hversu ólíkan hátt hönnuðir tækla þetta. Alexander Wang hannar t.d. bæði fyrir sitt eigið merki og svo líka Balenciaga. Hjá Alexander Wang verður efnisblöndunin að yrjóttu, steingráu efni en hjá Balenciaga verða áhrifin líkust marmara. Hann náði því að túlka þetta á tvo, mjög ólíka vegu.
Línan hjá Sportmax var full af þessum textílleik og ég hefði auðveldlega getað búið til myndina með því að nota bara föt frá þeim, en þá hefði ég ekki beint verið að fylgja verklýsingunni, heh.
Mér fannst ótrúlega gaman að grúska í þessu, enda er ég (eins og hún mamma) alltaf smá veik fyrir gráum lit. Ég verð þó að viðurkenna að eftir að hafa starað á þessi efni í langan tíma, þá voru augun mín orðin frekar vitlítil. 


Seinna þemað mitt var því kærkomin hvíld fyrir augun. Það er miklum mun þægilegra að rýna á mjúk flauelsefni sem falla á svo heillandi hátt heldur en dáleiðandi grá munstur. Ég valdi aðallega að fjalla um þetta trend vegna þess að ég hef ekki getað vikið fjólubláa skósíða kjólnum frá Alberta Ferretti úr huganum síðan hann var sýndur á tískupöllunum í febrúar. Flauel er oftast haft í dökkum, ríkum litum eins og smaragðsgrænum en mér finnst eiginlega skemmtilegra að sjá þegar flauel er notað í litum og sniðum sem eru ekki svo hefðbundin. Eða kannski er ég bara að segja þetta vegna þess að ég er vandræðalega skotin í gráa flauelinu hjá Marni..

Hvað sem því líður, þá er hér fyrsta verkefnið mitt fyrir IED.

1 ummæli:

  1. girnist, næstum fyrsta verkefnið þitt! Heillar mig! Ef lærdómur dagsins í dag hjá mér hefði boðið upp á einhverja sköpun...færi ég sáttari í rúmið ;) Ó, ég hlakka til annaðkvöld!

    SvaraEyða