29.11.13

hjúfrið
Ég vissi um leið og ég kom inn í kennslustofuna til þess að fara í minn fyrsta photoshop tíma að þessi áfangi myndi seint komast í uppáhald. Nú þegar þremur kennslustundum er lokið, veit ég að ég á eftir að þurfa að vinna vel að því að ná árangri í þessu forriti því kunnáttan á það er vel utan við mitt þekkingarsvið.. sem og flest annað sem tengist tölvum/tækni, heh.
Það er varla hægt að segja að ég sé stolt af þessari klippimynd minni en þar sem markmiðið með þessu bloggi er aðallega að halda yfirlit yfir innblásturinn minn, verkefnin mín og framfarir, þá finnst mér að þessi mynd eigi rétt á að kúra hér.

Annars er ég stoltust af því að hafa náð að klára þetta af því að (og nú fá tölvuhæfir einstaklingar góðfúslegt leyfi mitt til þess að hnussa) það var frekar flókið að klippa allar þessar myndir út og raða þeim upp þannig að þær fóru ekki í taugarnar á mér.. og auðvitað náði ég að misreikna staðsetninguna á hverri mynd svo gríðarlega að það mætti halda að ég hefði verið að gera þetta að loknum nokkrum tekílaskotum en ekki á mánudagsmorgni með dyggri aðstoð frá kanilkaffinu mínu.

Í lok áfangans mun ég svo skoða þessa bloggfærslu mína og hlæja að því hversu léleg í photoshop ég var til að byrja með.. right? Jújú, það mun pottþétt gerast - sé fram á gífurlegar framfarir! Stórir draumar og allt það.

20.11.13

afbragðÞað er afbragðsgott að hlusta á þetta lag fyrir svefninn.. Vandamálið er samt að ein hlustun breytist í tvær, tvær breytast í þrjár, þrjár í fjórar.. Niðurstaðan er sú að svefntímanum er stöðugt seinkað en mér er samt eiginlega sama - Nick Cave hefur þau áhrif.

15.11.13

rokkið


Ég veit ekki hvort það hefur farið framhjá einhverjum, en síðasta miðvikudag upplifði ég eitt það magnaðasta sem ég hef nokkurn tímann upplifað; tónleika með Arctic Monkeys. 
Til að koma mér í rétt og rokkað hugarástand fyrir tónleikana, ákvað ég að skreyta mig með þessari lærakeðju. Ég hafði þó sem betur fer vit á því að fara ekki með hana á tónleikana af því að ef ég hefði gert það, þá væri hún núna týnd að eilífu! Þvílík dásemdarsturlun sem þetta var!
Alla vega, ég bjó til þessa keðju einhvern tímann síðasta vetur en hafði bara notað hana einu sinni af því að það virtist aldrei vera hentugt tækifæri til þess að spóka sig um með hana. Mér finnst líka varla þóknanlegt að nota hana við stuttbuxur af því að þá sést í teygjuna og það hitti þannig á að þegar ég var nýbúin að búa hana til, þá fór ég á langt stuttbuxnaskeið. Á eftir því fylgdi svo gallabuxnaskeiðið mitt þannig að hún var líka lítið notuð þá. Einhvern veginn datt mér samt í hug að stinga henni ofan í ferðatöskuna mína á síðustu stundu þegar ég pakkaði fyrir Ítalíu.
Það var frekar einfalt að gera hana og ef ég kemst allt í einu upp á lag með að nota hana, þá bý ég kannski til fleiri afbrigði. Það mun þó ekki gerast fyrr en um jólin af því að keðjupokinn minn var of þungur fyrir reglugerðir flugfélaga um töskuþyngsl..

Dóra bjó til myndband sem fangar stemninguna á tónleikunum fullkomlega, hér
Langar aftur! Af hverju er Alex Turner svona heillandi?! ;)

11.11.13

hrollurinn
Ég eyddi deginum í að ferðast um Mílanó þvera og endilanga til þess að elta uppi hluti á afskaplega löngum innkaupalista. Maður hefði haldið að það ætti ekki að vera svo erfitt að finna nokkrar gerðir af pappír í pappírsbúð eða reglustiku sem notuð er við að teikna snið í saumabúð en það var víst einhver mánudagur í öllum í dag (og ég tel sjálfa mig með í því).
Þótt ég hafi fundið fátt annað á þessu vappi mínu um borgina þá fann ég þó almennilega fyrir því að það er farið að kólna þannig að núna þarf ég að fara að vefja mig inn í fleiri lög af fötum áður en ég rölti í skólann á morgnana. Ég hef svo sem ekkert á móti því þar sem ég er orðin afhuga öllum átfittum sem samanstanda ekki af prjónuðum peysum, buxum, þykkum sokkum og stórum trefli. Því meira sem ég líkist stórum bangsa, því betra! ..Nei ókei, ástandið er kannski ekki alveg orðið svo slæmt en það styttist í það!

Í tilefni ört kólnandi veðurs og kósý fatnaðar, þá ætlum við Dóra að fagna með því að kjamsa á eplum og kúra yfir þessari.

stay warm!

8.11.13

ábreiðan


Ég er mjög misvirk þegar kemur að bloggferlinu. Eina vikuna er ég með höfuðið fullt af hugmyndum og blogga jafnvel oftar en einu sinni á dag. Aðrar vikur ganga ekki eins vel og líða hjá, blogglausar. Það er ekki það að ég hafi ekki neitt til þess að blogga um - þvert á móti jafnvel. Um síðustu helgi skruppum við Dóra t.d. í heimsókn til Matteo í Sviss þar sem við borðuðum vandræðalega mikið og hlógum ennþá meira. Fullkomið! (takk aftur fyrir mig, Matteo!) Í þessari viku er búið að vera mjög mikið að gera. Ég byrjaði í þremur nýjum áföngum sem ég gæti svo sem reynt að skrifa eitthvað skondið um en, því miður, þá er ég bara ekki nógu sniðug og fyndin í augnablikinu til þess að láta það hljóma sjarmerandi. Ég lofa að reyna einhvern daginn en núna er ég of full af gómsætu pasta og með hugann við djúsí ávaxtasalat með bræddu súkkulaði sem ég er að fara að borða yfir einum þætti (ókei, eða þremur) af Sherlock á eftir.
Hvað gera bændur þá, þegar þeir eru of hugmyndasnauðir til þess að blogga en samt með samviskubit yfir því hvað það er langt síðan þeir gerðu það síðast?

Jú, þeir taka því sem teikni um að nú sé kominn tími til að blogga aftur um Jack White.
Þið verðið að afsaka það en héðan í frá mun ég víkja frá góðri íslenskri málnotkun. Þetta lag er nefnilega cover. Ég gæti svo sem notað orðið ábreiða sem er opinbera íslenska þýðingin á cover en æi, mér finnst það hljóma eitthvað svo tilgerðarlega.

Eins og alþjóð veit, þá er þetta lag eftir Dolly Parton og er kannski ekki lag sem maður myndi búast við því að The White Stripes spili, en það er einmitt eitt af því sem ég elska við þau. Þau gáfu Jolene út á B-hliðinni á smáskífunni sem kom út til að kynna De Stijl árið 2000. Á þessum tíma voru The White Stripes á mikilli uppleið og voru aðallega þekkt fyrir að koma af stað bylgju af hljómsveitum sem duttu aftur í hrátt rokk. Það er því mjög óvenjulegt að þau hafi ákveðið að gefa út cover af lagi sem gömul kántrístjarna samdi og gerði frægt. Það hækkar ekki beint kúlfaktorinn, alla vega ekki svona á blaði.

Þetta cover er samt mjög áhugavert. The White Stripes breyta laginu og taka poppið úr því sem gerir það mun átakanlegra og maður gerir sér grein fyrir tilfinningunum sem felast í textanum. Jack breytir þó ekki textanum og lagar hann að sér, sem karlmaður. Hann syngur lagið enn frá sjónarhorni konunnar en það verður einhvern veginn ekki skrítið. Ef eitthvað er, þá nær hann að leggja ennþá meiri tilfinningu í það með því að flytja það á þennan hátt. Jack White að hálföskra "I'm begging of you, please don't take my man"? Óviðjafnanlegt.