8.11.13

ábreiðan


Ég er mjög misvirk þegar kemur að bloggferlinu. Eina vikuna er ég með höfuðið fullt af hugmyndum og blogga jafnvel oftar en einu sinni á dag. Aðrar vikur ganga ekki eins vel og líða hjá, blogglausar. Það er ekki það að ég hafi ekki neitt til þess að blogga um - þvert á móti jafnvel. Um síðustu helgi skruppum við Dóra t.d. í heimsókn til Matteo í Sviss þar sem við borðuðum vandræðalega mikið og hlógum ennþá meira. Fullkomið! (takk aftur fyrir mig, Matteo!) Í þessari viku er búið að vera mjög mikið að gera. Ég byrjaði í þremur nýjum áföngum sem ég gæti svo sem reynt að skrifa eitthvað skondið um en, því miður, þá er ég bara ekki nógu sniðug og fyndin í augnablikinu til þess að láta það hljóma sjarmerandi. Ég lofa að reyna einhvern daginn en núna er ég of full af gómsætu pasta og með hugann við djúsí ávaxtasalat með bræddu súkkulaði sem ég er að fara að borða yfir einum þætti (ókei, eða þremur) af Sherlock á eftir.
Hvað gera bændur þá, þegar þeir eru of hugmyndasnauðir til þess að blogga en samt með samviskubit yfir því hvað það er langt síðan þeir gerðu það síðast?

Jú, þeir taka því sem teikni um að nú sé kominn tími til að blogga aftur um Jack White.
Þið verðið að afsaka það en héðan í frá mun ég víkja frá góðri íslenskri málnotkun. Þetta lag er nefnilega cover. Ég gæti svo sem notað orðið ábreiða sem er opinbera íslenska þýðingin á cover en æi, mér finnst það hljóma eitthvað svo tilgerðarlega.

Eins og alþjóð veit, þá er þetta lag eftir Dolly Parton og er kannski ekki lag sem maður myndi búast við því að The White Stripes spili, en það er einmitt eitt af því sem ég elska við þau. Þau gáfu Jolene út á B-hliðinni á smáskífunni sem kom út til að kynna De Stijl árið 2000. Á þessum tíma voru The White Stripes á mikilli uppleið og voru aðallega þekkt fyrir að koma af stað bylgju af hljómsveitum sem duttu aftur í hrátt rokk. Það er því mjög óvenjulegt að þau hafi ákveðið að gefa út cover af lagi sem gömul kántrístjarna samdi og gerði frægt. Það hækkar ekki beint kúlfaktorinn, alla vega ekki svona á blaði.

Þetta cover er samt mjög áhugavert. The White Stripes breyta laginu og taka poppið úr því sem gerir það mun átakanlegra og maður gerir sér grein fyrir tilfinningunum sem felast í textanum. Jack breytir þó ekki textanum og lagar hann að sér, sem karlmaður. Hann syngur lagið enn frá sjónarhorni konunnar en það verður einhvern veginn ekki skrítið. Ef eitthvað er, þá nær hann að leggja ennþá meiri tilfinningu í það með því að flytja það á þennan hátt. Jack White að hálföskra "I'm begging of you, please don't take my man"? Óviðjafnanlegt.1 ummæli:

  1. ...held ég hefði valið svarthvítamyndbandið þar sem þeir taka þetta lag...en ;) - grínið sem þú þurftir í kvöld?
    En þú seldir mér þetta lag í flutningi þeirra enn frekar. Jack-arinn þinn er áhugaverður!

    SvaraEyða