13.12.13

blikkið


Dóra rak mig í að blogga aftur þannig að hæ. 
Ég var hins vegar frekar hugmyndasnauð um nákvæmlega hvað ég ætti að blogga þannig að eins og svo oft áður, þá fletti ég í gegnum möppu í tölvunni minni sem inniheldur alltof mikið af myndum sem mér hefur á einhverjum tímapunkti fundist fallegar, sniðugar, fyndnar eða asnalegar. Og hvað haldið þið að ég hafi fundið grafið á milli mynda af fallegum peysum og screenshots úr The Fall? Jújú, þetta meistaraverk eftir sjálfa mig:




Það var nefnilega frekar lítið að gera einn daginn í vinnunni í sumar og ég var nýbúin að klára bæði bók og nesti. Þá fékk ég þá frábæru hugmynd að taka þessa fínu mynd af Magdalenu Frackowiac og teikna mjóar neonlitaðar línur í kringum alla skugga og andlitsdrætti. Í nafni hreinskilni þá skal ég viðurkenna að þetta tók langan tíma en það er allt í lagi af því að það gaf mér tækifæri til þess að hlusta á nokkra klukkutíma í viðbót af þessu. Þegar verkinu var svo loksins lokið hlýt ég að hafa verið komin í eitthvað undarlegt skap af því að á þessum tímapunkti fannst mér ekkert meika meira sens en að skella upprunalegu myndinni og svo lagfæringunum mínum saman í eitt sætt gif. 
Ég veit að þetta er ekki beint jólalegasta mynd í heimi en samt er eitthvað við neon-blikkið sem minnir mig á jólaseríurnar sem eru í uppáhaldi hjá Ítölum.. þeir kjósa nefnilega nær eingöngu blikkandi partýseríur sem eru farnar að valda mér höfuðverkjum. Hlakka til að sjá friðsamlegu ljósin á Íslandi!


..ég held ég skilji þetta bara hljóðlega eftir hérna og vona að mér finnist ennþá jafn fyndið á morgun að ég hafi sett þetta á bloggið mitt. Ciao!


1 ummæli:

  1. Blikk, blikk,blikk - þrátt fyrir að vera korter í geðveiki vegna þeirra þá finnst mér þetta blikk huggulegt! Blikk, blikk, blikk!

    SvaraEyða