31.1.14

gömlu kynnin


Þessi færsla er full af svigum og ruglingslegu orðalagi - get þakkað yfirvofandi prófum og skólaálagi fyrir það.. (og kannski smá metnaðarleysi).

Ég elska shuffle. Nei, virkilega. Elska það.
Það er bara eitthvað svo þægilegt að ganga heim úr skólanum í leiðindaveðri, dúðaður í allt prjónadótið sem mamma sendi mann með út í heiminn, með heyrnartól á eyrunum og ipod í vasanum.
Mér finnst undarlega gaman að skella á shuffle og klæða mig svo vandlega í vettlingana þannig að ég mun ekki nenna að fara úr þeim til þess að skipta um lag. Smá áhætta en yfirleitt endar það vel.
Þegar ég var nýbyrjuð í framhaldsskóla og komin með fartölvu, þá var ég fastagestur á síðunni Daytrotter. Stjórnendur síðunnar fengu til sín hljómsveitir, oft lítið þekktar, sem spiluðu þrjú til fjögur lög live í stúdíói og svo var þessum upptökum skellt á netið þaðan sem allir gátu downloadað þeim ókeypis. Það sem var best við síðuna var það að maður kynntist alls konar hljómsveitum og fékk líka oft að heyra þekktar hljómsveitir taka lögin sín á nýjan hátt.
Daytrotter átti þátt í því að kynna mig m.a. fyrir Fleet Foxes (sú kynning skilaði af sér nærri því þráhyggjulegri hlustun, einu tattúi og kom mér í gegnum heilt sumar af hótelherbergisþrifum), Illinois (sem er ómögulegt að finna á netinu vegna óheppilegs nafns), Barcelona (líka frekar óheppilegt nafn), Cage the Elephant (fullkomin keyrslutónlist), Mieka Pauley (sem, hreinskilnislega, er auðvelt að fá leið á), Sixto Rodriguez (sem á eiginlega skilið sína eigin bloggfærslu - kannski einhvern daginn) og William Elliott Whitmore (sem er ein af ólíklegustu ástunum í lífi mínu).
Þar sem hver hljómsveit tók bara upp þrjú eða fjögur lög hjá Daytrotter og ég var mjög virk í að downloada hinum ýmsu lögum frá þeim, þá eru mörg lög í itunes hjá mér sem ég annað hvort kannast ekki við eða eru með hljómsveitum og listamönnum sem ég er hreinlega búin að gleyma (þó að ég hafi hlustað á þau stanslaust í nokkurn tíma fyrir sex árum).
Og þá erum við aftur komin að ástæðunni fyrir því að ég elska shuffle. Ég á það til að staðna í lagavali - hlusta á eina plötu aftur og aftur í nokkrar vikur og fá svo algert ógeð á henni. Þá er fínt að setja á shuffle því það er smá eins og að uppgötva ný lög sem eru þó þægilega kunnugleg eða vekja jafnvel upp ákveðnar minningar. Ég hef ekki verið jafn dugleg upp á síðkastið að finna mér nýja tónlist að hlusta á - aðallega vegna þess að tímaleysi háir mér þessa dagana. Því finnst mér fullkomið að geta ýtt á shuffle og fengið straum af góðri og gleymdri tónlist beint í eyrun.

Ég ætla að skilja ykkur eftir með þrjú af þessum gleymdu lögum og kveðju frá nostalgískri Sólrúnu.








P.s. Daytrotter byrjaði að rukka ársgjald þegar ég átti ekki kreditkort þannig að ég hætti að nota síðuna. Þyrfti kannski að endurskoða það?

19.1.14

tengingar


Í skólanum er ég í tímum sem heita Methodology. Þessir tímar ganga nokkurn veginn út á það að kenna okkur að rannsaka innblástur og hugmyndir á bak við fatalínurnar sem við munum svo koma til með að hanna. Okkur er kennt að þróa hugmyndirnar og að fara dýpra í hlutina með því að rannsaka þá enn frekar. Hingað til hefur það þýtt rosa mikið af moodboards en núna eftir jól höfum við einnig verið að vinna að því að búa til hugmyndabók. Við fengum þrjú þemu til þess að velja úr um og svo fólst verkefnið í því að þróa þessa hugmynd nánar út frá okkar sjónarhorni. Ég valdi pureness  eða hreinleika og þar sem ég valdi þetta fyrir jól og var farin að sakna íslenska vatnsins og loftsins alvarlega, þá ákvað ég að þróa það yfir í hreinleika íslensku náttúrunnar.
Ég hef haft mjög gaman af því að finna myndir af landslagi og að tengja þær yfir í myndir af t.d. fötum, byggingum, glerbrotum, skartgripum, dýrum og konum. Kennarinn minn er frekar hrifin af þessum tengingum hjá mér og segir að sýnin mín sé mjög sterk og norræn haha.. Hún trúir því líka stundum ekki að það sé í alvörunni byggð á Íslandi því henni finnst landslagið tilheyra annarri plánetu. Smá asnalegt hvað ég verð stundum kjánalega stolt af þessari litlu eyju..

Alla vega, hér eru nokkrar tengingar. Ég tek kannski nokkrar myndir af bókinni minni þegar hún verður tilbúin og skelli hingað inn - held að það verði smá skemmtilegt að sýna myndir af listrænu naglalakksslettunum mínum og rjúpunum sem ég klippti út úr bæklingi frá Wow Air.