13.12.13

blikkið


Dóra rak mig í að blogga aftur þannig að hæ. 
Ég var hins vegar frekar hugmyndasnauð um nákvæmlega hvað ég ætti að blogga þannig að eins og svo oft áður, þá fletti ég í gegnum möppu í tölvunni minni sem inniheldur alltof mikið af myndum sem mér hefur á einhverjum tímapunkti fundist fallegar, sniðugar, fyndnar eða asnalegar. Og hvað haldið þið að ég hafi fundið grafið á milli mynda af fallegum peysum og screenshots úr The Fall? Jújú, þetta meistaraverk eftir sjálfa mig:




Það var nefnilega frekar lítið að gera einn daginn í vinnunni í sumar og ég var nýbúin að klára bæði bók og nesti. Þá fékk ég þá frábæru hugmynd að taka þessa fínu mynd af Magdalenu Frackowiac og teikna mjóar neonlitaðar línur í kringum alla skugga og andlitsdrætti. Í nafni hreinskilni þá skal ég viðurkenna að þetta tók langan tíma en það er allt í lagi af því að það gaf mér tækifæri til þess að hlusta á nokkra klukkutíma í viðbót af þessu. Þegar verkinu var svo loksins lokið hlýt ég að hafa verið komin í eitthvað undarlegt skap af því að á þessum tímapunkti fannst mér ekkert meika meira sens en að skella upprunalegu myndinni og svo lagfæringunum mínum saman í eitt sætt gif. 
Ég veit að þetta er ekki beint jólalegasta mynd í heimi en samt er eitthvað við neon-blikkið sem minnir mig á jólaseríurnar sem eru í uppáhaldi hjá Ítölum.. þeir kjósa nefnilega nær eingöngu blikkandi partýseríur sem eru farnar að valda mér höfuðverkjum. Hlakka til að sjá friðsamlegu ljósin á Íslandi!


..ég held ég skilji þetta bara hljóðlega eftir hérna og vona að mér finnist ennþá jafn fyndið á morgun að ég hafi sett þetta á bloggið mitt. Ciao!


12.12.13

nýjungin


Ég er mjög slæm með það að fresta hlutum. Núna bíður til dæmis heilt fjall af heimavinnu þess að ég sinni því en í staðinn fyrir að byrja klifið, þá finnst mér þetta vera upplagður tími til þess að endurlífga bloggið mitt. Þannig að hér erum við.

Um daginn var ég, eins og svo oft áður, á ferð um borgina að leita að hlutum sem ég þarf að nota í skólanum. Í þetta skiptið beindist leitin að ákveðinni gerð af pennum sem var nauðsynlegt að eignast fyrir kennslustund daginn eftir. Ég hélt því út í kuldann þegar skólanum var lokið þennan dag með úlpuna rennda upp í háls, hökuna keyrða ofan í trefilinn og þunga skólatöskuna á öxlinni. Eftir að hafa gengið marga kílómetra og fengið þau svör um að pennarnir væru uppseldir (eða þannig túlkaði ég alla vega handapatið) í hverri búðinni á fætur annarri, þá kláraðist þolinmæðin mín. Ég ákvað því að streitast á móti vindinum og halda heim á leið.
 Ég var ekki komin langt þegar ég rakst á þessi orð:



Mér fannst smá kaldhæðnislegt að sjá þessi skilaboð, svona í ljósi þess að ég hef varla gert neitt annað en að upplifa eitthvað nýtt síðan ég flutti hingað. Eftir nokkurra mínútna göngu var ég þó búin að íhuga þetta betur. Ég er algjörlega komin inn í fasta rútínu sem breytist lítið á milli daga. Þar með eru upplifanirnar ekki lengur nýjar, heldur orðnar hversdagslegar. Það er orðið svo venjulegt að upplifa þessa ólíku menningu hér að hún hefur ekki jafn mikil áhrif á mig og hún gerði í upphafi. 
Hvert er ég að fara með þessu? Jú, þið eruð að fara að komast að því.

Á sama tíma og þessar hugsanir voru á sveimi í kollinum á mér, kom sérlega andstyggilegur vindgustur og smeygði sér beint að hálsinum mínum. Ég rak augun í einn af fatasölustöndunum sem eru hér út um allt, bölvaði vindinum í huganum og fór beinustu leið og keypti mér rúllukragabol.

Ég er ekki viss um að þið gerið ykkur almennilega grein fyrir því hversu stórt mál þetta er fyrir mig.. alla vega ekki þau ykkar sem hafa ekki þurft að hlusta á mig flytja mjög nákvæma og vel ígrundaða hatursræðu sem beinist að rúllukrögum. Mér líður smá eins og ég sé búin að svíkja allt sem ég trúi á, en á sama tíma er mér eiginlega alveg sama af því að í augnablikinu er mér þægilega hlýtt á hálsinum - tilfinning sem ég er ekki alveg búin að venjast ennþá. 


Þessi sjálfsmynd sýnir greinilega að ég er enn á varðbergi gagnvart því að rúllukraginn muni á einhverjum tímapunkti reyna að kyrkja mig en þetta er allt saman að koma og ég hef fulla trú á því að við munum verða bestu vinir. Ég er jafnvel að íhuga það að bjóða honum með heim til Íslands um jólin en ekki segja honum frá því - ég vil að það komi á óvart.