9.9.13

leðurpilsið


Ég man ekki hvar ég fann þetta leðurpils en einhvern veginn grunar mig að það hafi verið í Rauða krossinum. Ég skal alveg viðurkenna að þetta virka fáránleg kaup en samt gat ég ekki gengið í burtu frá öllu þessu leðri - ég meina, sjáið lengdina á þessu pilsi! 

Hvar er rússneski sirkusinn?

Alla vega, á þessum tíma blunduðu í mér hugmyndir um skartgripi úr leðri (meira um þá seinna) og ég hugsaði með mér að ef ég næ ekki að gera fallegt pils úr þessu leðurtjaldi, þá skiptir það ekki miklu því það verður hvort sem er svo mikill afgangur sem ég get nýtt í eitthvað skemmtilegt.

Pilsið var líka of vítt á mig og var almennt bara mjög unflattering. Ég byrjaði á því að stytta það um nánast einn þriðja og svo skar ég út munstur við neðri faldinn. 



Ég valdi að skera út rétthyrninga í tveimur röðum og hafði kassana í efri röðinni aðeins styttri en í þeirri neðri. Það hefði verið þægilegast að nota dúkahníf en þar sem svoleiðis græja fannst ekki á heimilinu, þá notaðist ég við eplahníf með beittum oddi. 
Mörgum þáttum af Breaking Bad og mjög aumum fingrum seinna, þá var ég búin með hringinn. 



Það voru tveir flipar með tölum í mittinu á pilsinu þannig að til þess að þrengja pilsið, þá klippti ég tölurnar af og saumaði þær svo aftur á mun innar en þær voru upphaflega. Af öllu ferlinu held ég að þetta hafi verið erfiðast. Fingurgómarnir voru orðnir alvarlega aumir eftir allan útskurðinn og það var ekki þægilegt að reyna að ýta á eftir nál í gegnum tvöfalt leður. 
Ég hefði nú svo sem alveg getað gefið puttunum frí og beðið til morguns með að klára pilsið en ég var orðin svo spennt að sjá hvernig það hefði heppnast að ég varð að klára!



Þetta var afskaplega tímafrekt ferli en ég er samt svo ánægð með pilsið mitt að mér finnst það hafa verið þess virði! Ég ætla að nota það eins og brjálæðingur í september og helst fá svo mikið leið á því að ég verði ekkert sorgmædd yfir því að geta ekki tekið það með út (leður er nefnilega svolítið þungt). Oh well..


2 ummæli: